FRÉTT VINNUMARKAÐUR 08. MAÍ 2024

Alls voru 5.590 laus störf á íslenskum vinnumarkaði á fyrsta ársfjórðungi 2024 samkvæmt starfaskráningu Hagstofu Íslands. Á sama tíma voru 227.250 störf mönnuð og hlutfall lausra starfa því 2,4% (sjá öryggisbil í töflu). Lausum störfum fjölgaði um 840 á milli ársfjórðunga og hlutfall lausra starfa hækkaði um 0,4 prósentustig. Samanburður við fyrsta ársfjórðung 2023 sýnir að laus störf eru 3.030 færri nú en í fyrra og hlutfall lausra starfa dróst saman um 1,3 prósentustig á milli ára.

Áfram er hlutfallsleg eftirspurn eftir starfsfólki mest á meðal rekstraraðila í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð þar sem 1.200 störf eru laus og hlutfall lausra starfa 6,5%. Hlutfall lausra starfa í greininni hefur verið á bilinu 5,6 til 13,3% frá ársbyrjun 2021 til fyrsta ársfjórðungs 2024. Fjöldi lausra starfa í byggingastarfsemi hefur verið á bilinu 870 til 2.180 í hverjum ársfjórðungi og hefur fjöldi mannaðra starfa aukist um rúmlega 4.400 störf á síðustu þremur árum.

Um gögnin
Starfaskráning Hagstofu Íslands er ársfjórðungsleg úrtaksrannsókn sem nær til allra lögaðila á Íslandi sem eru með einn eða fleiri starfsmann í vinnu á viðmiðunardegi rannsóknarinnar. Úrtakið er valið í byrjun árs á grundvelli upplýsinga úr fyrirtækjaskrá Hagstofu Íslands frá árinu á undan. Viðmiðunardagur starfaskráningar fyrir fyrsta ársfjórðung 2024 var 15. febrúar. Alls fengust 617 svör og var svarhlutfall 88,8%.

Upplýsingar um fjölda mannaðra starfa byggja á staðgreiðslugögnum sem eru bráðabirgðatölur þangað til tólf mánuðir hafa liðið frá viðmiðunartímabili. Eftir þann tíma eru þær festar og metnar áreiðanlegar. Fyrirhugað er að endurskoða tölurnar á þriggja ára fresti ef markverðar breytingar hafa orðið á eldri tölum.

Athugið að við uppfærslu á talnaefni fyrir fyrsta ársfjórðung 2024 voru þýðistölur fyrir vogir ársins 2021 og 2022 festar og tímaröðin uppfærð frá 2021. Þetta hafði í för með sér lítilsháttar breytingar á hlutfalli lausra starfa í einhverjum tilfellum (á bilinu –0,2 til +0,1 prósentustig).

Við túlkun á fjölda og hlutfalli lausra starfa þarf að hafa í huga að um úrtaksrannsókn er að ræða. Því þarf að hafa 95% öryggisbil til hliðsjónar við túlkun á niðurstöðum.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1037 , netfang kannanir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.